Skaðinn af sólinni lágmarkaðir

Við fylgjum ekki alltaf ráðleggingum lækna upp á hár. Sum okkar drekka meira vín en æskilegt væri, eða borða meira nammi en við ættum. Við kjömsum á reyktum og söltuðum mat og hreyfum okkur minna en læknirinn myndi vilja.
Læknarnir ráðleggja líka að fólk vari sig á sólinni en samt geta fæst okkar staðist það að reyna að taka smá lit þegar veðrið er gott og himinninn heiðskír. Það þykir agalega skrítið að skjótast suður til Tenerife eða Mallorca og koma ekki heim með fína brúnku.
Er kannski til einhver meðalvegur? Einhver leið til að leyfa sólinni að gera húðina brúna en lágmarka skaðann?
Dr. Bárður Sigurgeirsson húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni segir að það verði að taka alvarlega þann skaða sem sólin geti valdið og sumir séu með þannig húðgerð að þeir ættu helst ekki að reyna að taka lit því sterk sólin veldur þeim svo miklu tjóni til lengri tíma litið.
“Við læknarnir viljum ekki banna fólki að njóta góðviðrisdaga eða ferðast til sólríkra landa, en það er áríðandi að fólk sé meðvitað um styrleika sólarinnar og þau áhrif sem geislarnir geta haft.”

UV-stuðullinn vísar veginn

Útfjólublái stuðullinn (e. UV-index) er það sem ætti að skoða þegar kemur að því að fara út í sólina. Vegna afstöðu jarðar og sólar, og vegna veðurfars, geta geislar sólarinnar verið missterkir eftir dögum og árstímum. “Á veturna getur fólk verið úti í sólinni allan daginn án sólarvarnar og lítil hætta á að húðin brenni. Um þessar mundir mælist útfjólublái stuðullinn á Íslandi varla 1 stig, en upp að 2 stigum þarf fólk ekki að nota sólarvörn,” útskýrir Bárður. “Þegar komið er upp í 3 til 5 stig er sólarvörnin nauðsynleg og helst að nota þarf sólgleraugu og hatt líka. Við 6 til 7 stig verður að nota öfluga sólarvörn og vissara að forðast að vera í sólinni þegar hún er sterkust frá hádegi fram til kl. 15. Í löndunum næst miðbaug getur útfjólublái stuðullinn farið yfir 11 og þá er hægt að brenna á mjög stuttum tíma.”
Bárður segir að ef ætlunin sé að vera í sólinni sé það góð regla að gera leit á netinu í byrjun dags til að sjá hver UV-stuðullinn er og gera síðan ráðstafanir í samræmi. “Ef UV-stuðullinn mælist 6 þá getur fólk með viðkvæma húð brunnið á um 20 mínútum og þeir sem hafa venjulega húð brenna á 50 mínútum.”

Sumir eiga ekki að reyna að verða brúnir

Vilji fólk endilega taka lit segir Bárður að þurfi að fara hægt í sakirnar og reyna að forðast það alfarið að húðin verði rauð. Roðinn er til marks um að sólargeislarnir hafi skemmt frumurnar í húðinni. “Það er vitað að munstrið í sólböðum fólks hefur áhrif á tíðni húðkrabbmeins. Þeir sem stunda mjög áköf sólböð í stuttan tíma, t.d. þegar farið er í sólarlandaferðir, eru í meiri hættu en þeir sem eru jafnar og í hæfilegri tíma í senn í sólinni, þó svo að heildargeislunin sé sú sama þegar allt er talið.”
Fólk með ljósustu húðina, það sem kallað er húðgerð 1 og 2, ætti að vara sig alveg sérstaklega. “Fyrir fólk með þessar húðgerðir er sólbrúnkan mjög dýru verði keypt, en um leið er það fólk með þessa húðgerð sem er oft mest í mun að verða brúnt,” útskýrir Bárður en til glöggvunar þá eru þeir með húðgerð 2 sem gengur illa að taka lit og verða oft rauðir áður en brúnkan kemur fram.
Þessu fólki ráðleggur Bárður að reyna frekar að vera stolt af fallegum náttúrulegum húðlitnum. “Við þurfum ekki öll að vera eins á litin og hvít húð er mjög falleg. Það er óþarfi að leggja það á sig að beita einhverjum brögðum; liggja í sólinni og á ljósabekkjunum til að reyna að vera öðruvísi en við erum.”
Minnir Bárður á að fólk með húðgerð 1 og 2 geti fljótlega orðið vart við skemmdir á húðinni af völdum sólarinnar. “Á sólbaðsstöðunum úti í heimi sjáum við fólk sem ber þessa merki. Þetta er fólk sem er ekki endilega orðið svo gamalt en yfirborð húðarinnar er farið að láta á sjá með hrukkum og litabreytingum svo að minnir helst á gamla sveskju. Sólin hefur brotið niður bandvef húðarinnar svo hún verður lin og slöpp. Kemur enda ekki á óvart að fólk eins og fyrirsætur og leikarar sem stóla á unglegt og frísklegt útlit vanrækja ekki að nota sólarvörnina og leyfa húðinni að vera skjannahvít ef þeirra húðgerð er þannig.”

Sólarvörnin notuð rétt

Velja þarf sólarvörn sem hentar húðgerð hvers og eins og styrkleika sólarinnar á hverjum stað. Á flöskunum sést styrkleikinn á SPF-gildinu, þar sem hæ...

Velja þarf sólarvörn sem hentar húðgerð hvers og eins og styrkleika sólarinnar á hverjum stað. Á flöskunum sést styrkleikinn á SPF-gildinu, þar sem hærra gildi veitir meiri vörn.

Bárður segir líka skipta máli að nota sólarvörnina rétt. “Það þarf að bera vel á af sólarvörninni. Ef maður er of sparsamur á vöruna og ætlar að láta nokkra dropa duga hátt og lágt þá er sólarvörnin ekki að virka sem skyldi. Verður síðan að bera á meiri sólarvörn yfir daginn, og athuga t.d. hvort sólarvörnin er vatnsheld eða skolast af um leið og farið er ofan í sundlaug eða svamlað í sjónum.”

Ljósabekkirnir ekkert skárri

Bárður segir það lífseiga goðsögn að ljósabekkir valdi húðinni minni skaða en sólin. “Perurnar gefa frá sér meira af svokölluðum A-geislum, en sólin meira af B-geislum. A-geislarnir hafa lengdri bylgjulengd og fara dýpra ofan í húðina og geta þannig lamað frumur ónæmiskerfisins en valda síður sólbruna. Var lengi talið að A-geislarnir yllu minni skemmdum á húðinni en B-geislarnir. Nú hefur komið í ljós að langtímaáhrifin af ljósabekkjanotkun eru síst minni en af sólböðum og ljósabekkir komnir á lista heilbrigðisstofnana yfir hættulega krabbameinsvalda.”

Þá virðast margir líka halda að það sé sniðugt að fara í ljós áður en flogið er af stað á sólarstrendurnar, og að húðin muni þola sólina betur ef kroppurinn er þegar kominn með smá lit. “En nú vitum við að A-geislarnir eru hættulegir rétt eins og B-geislarnir og því erfitt að sjá hvaða gagn það getur gert að fara í ljós fyrir sólarstrandaferðina.”

Morgunblaðið sagði frá 21.02.2016 /Ásgeir Ingvarsson
Húðlæknastöðin - Smáratorgi 1, 201 Kópvogur - s. 5204444 - fax. 5204400 - Skiptiborðið opið 9-12 og 13-15:30