Sveppasýkingar hjá sundgestum

Inngangur:

Sveppasýkingar í tánöglum eru algengt vandamál á Íslandi og hefur
kostnaður vegna sveppalyfja aukist töluvert hin síðustu ár. Nýleg íslensk rannsókn
bendir til þess að um 8% Íslendinga séu með sveppasýkingar í tánöglum. Mikilvægt
er að rannsaka faraldursfræði naglsveppasýkinga vel svo unnt sé að beita viðeigandi
forvörnum. Því hefur verið haldið fram að sundfólk eigi meiri hættu á að smitast af
fótsveppum en aðrir og tilgangur þessarar rannsóknar er að athuga hvort sá grunur sé
á rökum reistur.

Aðferðir:

Rannsóknin var framkvæmd í Laugardalslauginni. Hún stóð yfir í 14 daga,
frá 15. mars til 12. apríl, 6 klst á dag og var 10. hverjum íslenskum gesti, eldri en 18
ára boðið að taka þátt í könnuninni. Þátttaka var 75% eða 266 manns, 183 karlar og 83
konur. Aldur þátttakenda var á bilinu 17-88 ár. Meðalaldur karla var 51 ár og kvenna
57 ár. Fætur þátttakenda voru skoðaðir og þeir svöruðu spurningalista. Ef grunur var
um sveppasýkingu var tekið sýni, sem síðan var smásjárskoðað og ræktað á
Sabourauds agar.

Niðurstöður:

Tíðni sveppasýkinga í tánöglum staðfestra með ræktun reyndist vera
22,6% meðal sundgesta og gæti verið allt að 28,6%, ef einnig er tekið tillit til þeirra
sem reyndust vera með jákvæða smásjárskoðun. Trichophyton rubrum var
langalgengasti sveppurinn sem ræktaðist (90%) en einnig ræktuðust Trichophyton
mentagrophytes og Epidermophyton floccosum í nokkrum tilfellum. Algengast var að
neglurnar á stóru tánum væru sýktar. 26,2% karla voru með sveppasýkingar í
tánöglum en 14,5% kvenna, ef miðað er við jákvæða ræktun. Tíðni sýkinga eykst með
aldri og hjá eldri en 70 ára var tíðnin um 40%, en 12% í aldurshópnum 30-49 ára.
57% aðspurðra kváðust hafa fengið sár á milli tánna, en það bendir til sveppasýkingar
í húð (tinea pedis), og var það nokkuð algengara hjá þeim sem voru með jákvæða
ræktun. 94% aðspurðra stunda sund reglulega.

Ályktun:

Greinilegt er að sveppasýkingar í tánöglum eru algengari hjá sundgestum
en gengur og gerist. Ef miðað er við nýlega íslenska könnun virðist tíðnin vera um
þrefalt hærrri hjá þeim sem stunda sund reglulega. Það er því eðlilegt að álykta að
sveppir smitist manna á milli á sundstöðum. Brýnt er að finna leiðir til að sporna við
þessu og gætu breytt þrif og aukin fræðsla verið skref í rétta átt.

SKÝRSLA GUNNHILDAR Á ENSKU

SKÝRSLA GUNNHILDAR Á ÍSLENSKU (ÍTARLEGRI)
Húðlæknastöðin - Smáratorgi 1, 201 Kópvogur - s. 5204444 - fax. 5204400 - Skiptiborðið opið 9-12 og 13-15:30